Ræktunarfélagið Hákon

um stóðhestinn Hákon frá Ragnheiðarstöðum IS2007182575

03.04.2018 06:28

Aðalfundur 6. apríl 2018


Aðalfundur Ræktunarfélagsins Hákons verður haldinn í Félagsheimili Fáks í Víðidal í Reykjavík föstudaginn 6. apríl kl 17:00. 

Hefðbundin aðalfundarstörf eru á dagskránni. Ljúfar veitingar verða í boði félagsins fyrir fundargesti. 

Við bendum á að Meistaradeildin í hestaíþróttum er í Víðidalnum þetta kvöld. Keppt verður í tölti og skeiði og hefst keppni kl. 19:00. 

Árið 2018 stefnir í að verða eftirminnilegt ár fyrir okkur Hákonsfélaga. Hákon er nálægt því að ná lágmörkum til 1. verðlauna fyrir afkvæmi. Hann er með 121 í kynbótamatinu (hæst 128 fyrir fegurð í reið) og með 13 sýnd afkvæmi. Hann á því tvö sýnd afkvæmi í það að ná lágmörkum og heyrst hefur af glæsilegum hryssum og hestum á leið í dóm í vor. 

Einnig eigum við von á að sjá Hákonsbörn á keppnisvellinum í vor, stefnt er með alhliðagæðinginn og 9,5 skeiðarann Hönsu frá Ljósafossi í A-flokk og úrtökugæðinginn og 10 töltarann Ljósvaka frá Valstrýtu í B-flokk. 

14.07.2017 05:47

Sónarskoðað 21. júlí


Sónarskoðað verður frá Hákoni föstudaginn 21. júlí. Við biðjum þá sem eiga hryssur hjá Hákoni að vera í startholunum að sækja þær. Hringt verður í eigendur fylfullra hryssna. 

Hægt verður að bæta inn hryssum til Hákons þennan dag. Pantanir berist á hakon@hakon.is eða í síma 8641315 (Hannes) eða 8650027 (Ragga í Austvaðsholti). 

Við óskum eftir því að þeir sem eiga hryssur í hólfinu í Austvaðsholti eða eru á leiðinni með hryssur komi og aðstoði við sónarskoðun. Öll hjálp vel þegin! 


27.06.2017 14:26

Fullt undir Hákon á fyrra gangmál


Fullt er orðið undir Hákon í hólfinu í Austvaðsholti. Ráðgert er að sónarskoða hryssurnar sem eru hjá honum núna þann 20. júlí nk. Þann dag verður hægt að bæta inn hryssum. 

Áhugasamir hryssueigendur eru beðnir um að panta pláss með því að senda póst á hakon@hakon.is eða hringja í síma 8641315 (Hannes). 

27.06.2017 14:11

Aðalfundur 2017Aðalfundur verður haldinn fimmtudagskvöldið 6. júlí kl. 19 á Fjöruborðinu á Stokkseyri. 

Félagið býður öllum hluthöfum upp á humarsúpu fyrir fundinn, eða frá kl. 19. 
Hlökkum til að sjá ykkur. 

Þeir sem ekki komast á fundinn eru vinsamlega beðnir um gefa stjórn umboð fyrir atkvæði sínu með því að senda tölvupóst á hakon@hakon.is


Dagskrá aðalfundar er venjuleg aðalfundarstörf samkvæmt samþykktum félagsins.

Dagskrá fundarins verður sem hér segir:

1. Kjör fundarstjóra og fundarritara.

2. Skýrsla stjórnar;
Notkun Hákons 2016/2017
Afkvæmi sýnd 2016/2017

3. Ársreikningur félagsins 2016 og ákvörðun um meðferð hagnaðar eða taps.

4. Fjárhagsáætlun 2017

5. Breytingar á samþykktum.

6. Kjör stjórnar og endurskoðanda félagsins.

7. Umræður og atkvæðagreiðslur um önnur málefni sem löglega eru upp borin.

Endurskoðaður ársreikningur félagsins og skýrsla stjórnar verður lögð fram á fundinum.

21.05.2017 13:33

Notkunarstaðir Hákons sumarið 2017

Hákon er nú mættur til skyldustarfa á Sólvangi við Eyrarbakka. Þær mæðgur Elsa og Sigga Pje munu taka vel á móti hryssueigendum. Pantanir á húsmál berist til Elsu beint í síma 892-7159 eða með því að senda póst á hakon@hakon.is

Uppúr miðjum júní fer Hákon í sitt vanalega hólf í Austvaðsholti og verður þar fram í september. Til þess að panta undir hann þar er best að hringja í Röggu í Austvaðsholti í síma 865-0027 eða með því að senda tölvupóst á hakon@hakon.is
20.05.2017 15:22

Hákon kominn á Fésið!


Hákon er mættur á Facebook!!

Hákon vill vera vinur allra alvöru ræktenda og hestamanna. 

20.05.2017 13:02

Hákonsdóttir í 1. verðlaun í Þýskalandi


Telma frá Blesastöðum, undan Hákoni og Báru frá Brattholti fór í 1. verðlaun á kynbótasýningu í Þýskalandi núna um miðjan maí. Sýnandi var Sigurður Narfi. Við óskum ræktendunum, Magga og Hólmfríði á Blesastöðum, ásamt eigendum í Þýskalandi, Carolu Krokowski og Heike Majoros, innilega til hamingju. 

Í heildina er búið að sýna 8 hross undan Hákoni í kynbótadómi, þar af 6 í fyrstu verðlaun (þar af fjögur með á milli 8,30 og 8,62 í aðaleinkunn). 

Hákon hefur hækkað í kynbótamatinu (BLUP) á hverju ári sl ár og stendur hann nú í 123 stigum, þar af hæst fyrir tölt, vilja/geðslag og fegurð í reið (128 stig). 

Til að ná lágmörkum fyrir afkvæmasýningu til 1. verðlauna á Landsmóti á næsta ári stendur hann því vel hvað varðar kynbótamat en þarf 7 afkvæmi í viðbót til dóms (15 í heildina). 

27.07.2016 11:08

Sónarskoðað 12. ágúst


Sónarskoðað verður frá Hákoni föstudaginn 12. ágúst kl. 15:00. Við biðjum þá sem eiga hryssur hjá Hákoni að vera í startholunum að sækja sínar hryssur, en hringt verður í eigendur/umráðamenn fyllfullra hryssna. 


20.06.2016 08:18

Fullt undir Hákon í fyrra gangmáli


Hákon er með vinsælli stóðhestum landsins. Hann náði að afgreiða um 7 hryssur á húsi og það er orðið fullt undir hann á fyrra gangmáli í Austvaðsholti.
Alls eru komnar yfir 30 hryssur og verður því ekki bætt meira inn á hann í bili. 

Sónarskoðað verður um 20. júlí, fengnar hryssur teknar frá og fleiri bætt inn. 

Þeir sem vilja panta undir Hákon geta sent tölvupóst á hakon@hakon.is eða hringja í 8641315 (Hannes). Folatollurinn kostar 95.000 m/vsk (girðingargjald og sónarskoðun innifalin). 

15.06.2016 08:16

Ræktunarfélagið Hákon ehf. - Aðalfundur 2016


Ræktunarfélagið Hákon mun halda aðalfund í kvöld kl. 20 í Fákaseli í Ölfusi. Hefðbundin aðalfundarstörf á dagskránni. Kjötsúpa í boði félagsins frá kl. 19.

Aðalfundarboð var sent út til hluthafa í tölvupósti.  

15.06.2016 06:25

Hákon hækkar í kynbótamatinu


Hákon hækkar í kynbótamatinu BLUP sem var birt í gær á www.worldfengur.com

Hákon er kominn með 123 stig og af hans eiginleikum er hann hæstur fyrir tölt 122, fegurð í reið 129 og hæfileika 122. 

Þess má geta að Hákon er meðal hæstu stóðhesta á Íslandi fyrir fegurð í reið með 129 stig.  

13.06.2016 21:18

Hryssur til Hákons 18. júní


Hákon tekur á móti hryssum í Austvaðsholti í Holta- og Landsveit laugardaginn 18. júní milli kl. 13 og 17. Hægt er panta með því að senda tölvupóst á hakon@hakon.is eða hringja í 864 1315 (Hannes)

Folatollurinn er 95.000 m/vsk (innifalið er girðingargjald og ein sónarskoðun).

29.05.2016 18:48

Hákonsbörn í stóru tölurnar


Hákon heldur áfram að stimpla sig inn sem kynbótahestur. Á kynbótasýningunni í Hafnarfirði í vor komu þrjú 6 vetra hross til dóms. Öll voru sýnd áður og hækkuðu öll verulega. 
Meðaleinkunn þeirra er 8,40 í aðaleinkunn. 

Nokkur fleiri eru skráð í dóm í vor. Efst á blaði má finna Ljósvaka frá Valstrýtu sem kynnti sig vel á LM2014, þrælefnilega leirljósa 4ja vetra hryssu Aríu frá Austurási og Hyllingu frá Grásteini sem er öflug alhliða hryssa, 6 vetra. 

Hér að neðan má sjá dóma hrossana sem hafa komið fram í vor:

IS2010125727 Sæþór frá Stafholti
Örmerki: 352098100031111
Litur: 2510 Brúnn/milli- skjótt
Ræktandi: Guðmunda Kristjánsdóttir, Páll Jóhann Pálsson
Eigandi: Marver ehf
F.: IS2007182575 Hákon frá Ragnheiðarstöðum
Ff.: IS2002187662 Álfur frá Selfossi
Fm.: IS2001258875 Hátíð frá Úlfsstöðum
M.: IS2000286296 Bending frá Kaldbak
Mf.: IS1995188322 Jöfur frá Syðra-Langholti
Mm.: IS1997286295 Vænting frá Kaldbak
Mál (cm): 149 - 140 - 144 - 65 - 144 - 38 - 47 - 44 - 6,7 - 30,0 - 18,5
Hófa mál: V.fr.: 8,6 - V.a.: 8,8
Sköpulag: 8,0 - 8,5 - 8,0 - 9,0 - 8,0 - 8,5 - 8,5 - 8,0 = 8,43
Hæfileikar: 9,0 - 8,5 - 8,0 - 9,0 - 8,5 - 9,0 - 8,0 = 8,63
Aðaleinkunn: 8,55
Hægt tölt: 8,5      Hægt stökk: 8,0
Sýnandi: Árni Björn Pálsson
Þjálfari: 

IS2010288670 Hansa frá Ljósafossi
Örmerki: 352097800001882
Litur: 1540 Rauður/milli- tvístjörnótt
Ræktandi: Björn Þór Björnsson
Eigandi: Björn Þór Björnsson
F.: IS2007182575 Hákon frá Ragnheiðarstöðum
Ff.: IS2002187662 Álfur frá Selfossi
Fm.: IS2001258875 Hátíð frá Úlfsstöðum
M.: IS2001282206 Sunna-Rós frá Úlfljótsvatni
Mf.: IS1994158700 Keilir frá Miðsitju
Mm.: IS1990287126 Prinsessa frá Úlfljótsvatni
Mál (cm): 144 - 135 - 140 - 64 - 144 - 28,5 - 18,5
Hófa mál: V.fr.: 8,6 - V.a.: 8,0
Sköpulag: 8,0 - 8,5 - 9,0 - 8,5 - 7,5 - 7,5 - 8,0 - 6,5 = 8,13
Hæfileikar: 8,5 - 8,5 - 9,0 - 8,0 - 8,5 - 8,5 - 7,5 = 8,48
Aðaleinkunn: 8,34
Hægt tölt: 8,5      Hægt stökk: 8,0
Sýnandi: Sigurður Vignir Matthíasson
Þjálfari: 

IS2010282310 Sóllilja frá Hamarsey
Örmerki: 352206000069004
Litur: 6620 Bleikur/álóttur stjörnótt
Ræktandi: Hannes Sigurjónsson, Inga Cristina Campos, Per S. Thrane
Eigandi: Hrossaræktarbúið Hamarsey
F.: IS2007182575 Hákon frá Ragnheiðarstöðum
Ff.: IS2002187662 Álfur frá Selfossi
Fm.: IS2001258875 Hátíð frá Úlfsstöðum
M.: IS2003257001 Selma frá Sauðárkróki
Mf.: IS1989165520 Óður frá Brún
Mm.: IS1992257130 Sjöfn frá Sauðárkróki
Mál (cm): 147 - 137 - 142 - 64 - 147 - 27,0 - 17,0
Hófa mál: V.fr.: 8,2 - V.a.: 8,0
Sköpulag: 9,0 - 8,5 - 7,0 - 8,5 - 7,5 - 8,5 - 8,5 - 8,5 = 8,28
Hæfileikar: 9,0 - 9,0 - 5,0 - 9,0 - 9,0 - 9,0 - 8,5 = 8,30
Aðaleinkunn: 8,29
Hægt tölt: 9,0      Hægt stökk: 8,5
Sýnandi: Helga Una Björnsdóttir
Þjálfari: 

09.05.2016 19:22

Hákon til þjónustu reiðubúinn
Hákon frá Ragnheiðarstöðum hefur skipað sér í raðir álitlegra afkvæmahesta. Sýnd hafa verið fjögur afkvæmi undan Hákoni í kynbótadómi (4ja og 5 vetra) og öll hlotið 1. verðlaun. Meðaleinkunn afkvæma er 8,22 í aðaleinkunn (8,25 hæfileikar og 8,20 bygging). Einkennismerki afkvæma Hákons hafa verið mikil fótahæð og létt bygging auk þess sem þau eru fasmikil með mikinn fótaburð og úrvals tölt.


Upplýsingar um notkun árið 2016

Húsmál: Frá 1. maí í Austurási við Selfoss. Folatollur er kr. 95.000,- m/vsk og húsgjaldi. Pantanir berist til Röggu í Austurási, sími 6648001.

Gangmál: Langt gangmál yfir sumarið í Austvaðsholti í Holta- og Landsveit. Folatollur kr. 95.000,- m/vsk, sónarskoðun og girðingargjaldi. Pantanir berist á hakon@hakon.is eða til Hannesar, sími 8641315.

11.02.2016 08:26

Telma Hákonsdóttir


Fréttir af efnilegum Hákonsbörnum berast víða að. Félagið fékk þessar myndir sendar frá Carolu Krokowski í Þýskalandi á dögunum. Carola ræktar hross frá Igelsburg og er einn af stærstu hrossaræktendum íslenskra hesta í Þýskalandi. 

Hákonsdóttir hennar heitir Telma frá Blesastöðum og er á 5. vetri. Efnileg alhliðahryssa, létt í lund, viljug og alhliða geng. Hér setin af Sigurður Narfa sem sér um þjálfun hennar. Stefnt er með Telmu í kynbótadóm í Þýskalandi í vor. 

Móðir Telmu er Bára frá Brattholti, sem var undan Rosa frá Brekkum og heiðursverðlaunahryssunni Perlu frá Kjartansstöðum. Telma er ræktuð af Magnús og Hólmfríði á Blesastöðum sem eru hluthafar í Ræktunarfélaginu Hákoni. 

Við óskum Carolu og Sigga Narfa góðs gengis með þessa efnis hryssu í vor.